Alberto Moreno, bakvörður spænska knattspyrnufélagsins Villarreal, hefur hrósað knattspyrnustjóra félagsins Unai Emery í hástert í aðdraganda úrslitaleiks Evrópudeildarinnar þar sem Villarreal mætir Manchester United.
Leikurinn fer fram á morgun í Gdansk í Póllandi en Moreno, sem er 28 ára gamall, hefur leikið með Villarreal frá árinu 2019.
Moreno gekk til liðs við Villarreal frá Liverpool þar sem hann lék í fimm ár áður en hann snéri aftur til Spánar en hann vann Evrópudeildina með Sevilla árið 2014 og lék til úrslita í keppninni með Liverpool árið 2016.
„Samband mitt við Jürgen Klopp var frábært, líkt og samband mitt við Unai Emery sem er besti stjóri í heimi,“ sagði Moreno í samtali við fjölmiðla í aðdraganda úrslitaleiksins.
„Hann nær að kreista allt það besta fram úr manni, á öllum augnablikum leiksins. Hann er mjög hvetjandi og þú ert tilbúinn að gera allt fyrir hann þegar komið er út á völlinn.
„Klopp hefði kannski mátt verja mig betur fyrir þeirri gagnrýni sem ég fékk hjá Liverpool og gefa mér tækifæri þegar ég þurfti á því að halda.
Ég veit ekki hvort það var ákvörðun stjórans eða félagsins á sínum tíma að geyma mig á bekknum en eftir úrslitaleikinn 2016 þá var James Milner valinn fram yfir mig.
Hann var réttfættur miðjumaður og það þýddi bara eitt; þeir vildu ekki nota mig,“ bætti Moreno við.