Willian, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, gæti yfirgefið félagið í sumar. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
Sóknarmaðurinn, sem er 32 ára gamall, gekk til liðs við Arsenal á frjálsri sölu síðasta sumar eftir sjö ár í herbúðum Chelsea.
Willian lék 339 leiki fyrir Chelsea í öllum keppnum þar sem hann skoraði 63 mörk en hann náði sér alls ekki á strik með Arsenal í vetur og skoraði aðeins eitt mark í 37 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.
Sky Sports greinir frá því að Chelsea sé opið fyrir því að semja við leikmanninn á nýjan leik en Arsenal er tilbúið að leyfa honum að fara.
Willian á að baki 70 landsleiki fyrir Brasilíu en hann varð Englandsmeistari með Chelsea árin 2015 og 2017.