Knattspyrnumaðurinn Ibrahima Konaté hefur lokið læknissskoðun hjá stórliði Liverpool á Englandi. Það er ESPN sem greinir frá þessu.
Konaté, sem er 22 ára gamall, mun skrifa undir fimm ára samning við enska félagið en hann er samningsbundinn RB Leipzig í Þýskalandi.
Franski miðvörðurinn hefur verið sterklega orðaður við Liverpool undanfarnar vikur en enska félagið borgar rúmlega 30 milljónir punda fyrir Konaté.
Varnarmaðurinn er uppalinn hjá Sochaux í Frakklandi en hann gekk til liðs við RB Leipzig árið 2017 og hefur leikið þar síðan.