Allt að ellefu leikmenn gætu yfirgefið enska knattspyrnufélagið Liverpool í sumar en fimm leikmenn hafa nú þegar verið settir á sölulista hjá félaginu. Það er Goal.com sem greinir frá þessu.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vill styrkja leikmannahóp sinn fyrir komandi átök næsta tímabils en þarf að selja leikmenn til þess að fjármagna kaupin á nýjum leikmönnum.
Goal greinir frá því að sóknarmaðurinn Divock Origi sé kominn á sölulista hjá félaginu en hann hefur ekki átt fast sæti í liði Liverpool undanfarin tímabil.
Þá eru þeir Marko Grujic, Harry Wilson, Lloris Karius og Taiwo Awoniyi allir til sölu en þeir hafa eytt síðustu tímabilum á láni, að undanskildum Awoniyi sem fékk nýlega atvinnuleyfi á Bretlandi.
Þá er framtíð þeirra Xherdan Shaqiri og Takumi Minamino í mikilli óvissi en Shaqiri hefur lítið spilað með Liverpool undanfarin ár og Minamino lék á láni með Southampton seinni hluta tímabilsins.
Sheyji Ojo, Ben Woodburn og Liam Millar gætu allir verið seldir eftir að hafa komið upp í gegnum unglingastarf félagsins og þá er talið næsta víst að Rhys Williams verði lánaður eða seldur í sumar, þrátt fyrir að hafa spilað vel í lokaleikjum tímabilsins með Liverpool.