Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, verður að skila bikurum í hús til þess að sýna það og sanna að hann sé á réttri leið með liðið.
Þetta segir Mark Hughes, fyrrverandi fyrirliði liðsins, en United hafnaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð.
Solskjær, sem er 48 ára gamall, tók við sem tímabundinn stjóri United í desember 2018 eftir að José Mourinho var rekinn frá félaginu en hann skrifaði undir langtímasamning við enska félagið í lok mars 2019.
„Solskjær þarf að vinna bikara og það er raunhæft markmið miðað við hópinn sem hann er með,“ sagði Hughes í samtali við Sky Sports.
„Hann er á réttri leið með liðið og United endar í öðru sæti deildarinnar sem sýnir manni svart á hvítu að það eru framfarir á Old Trafford frá fyrri árum.
Hann verður að vinna bikara til þess að sýna það og sanna að hann sé á réttri leið með liðið,“ bætti Hughes við.
Manchester United mætir Villarreal í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í kvöld í Gdansk í Póllandi en liðið vann síðast stóran bikar árið 2017.