Marcus Rashford, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, varð fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum eftir tap United gegn Villarreal í úrslitum Evrópudeildarinnar í Gdansk í Póllandi í gær.
Leikmaðurinn greindi sjálfur frá þessu á samfélagsmiðlum sínum en í gærkvöldi höfðu honum borist 70 skilaboð sem innihéldu kynþáttafordóma í hans garð.
Rashford, sem er 23 ára gamall, átti ekki sinn besta dag í úrslitaleiknum frekar en flestir leikmenn United, sem tapaði úrslitaleiknum í dramatískri vítakeppni.
„Þeir sem eru að reyna láta mér líða verr en mér líður nú þegar; gangi ykkur vel,“ skrifaði Rashford á Twitter.
„Það sem gerir mig reiðan er sú staðreynd að einn af þeim sem sendu mér fjall af öpum er stærðfræðikennari með opinn reikning á samfélagsmiðlum.
Þetta er einhver sem kennir ungum börnum og veit að hann getur verið með kynþáttafordóma í garð annarra án þess að þurfa að taka afleiðingunum,“ bætti Rashford við.
I’m more outraged that one of the abusers that left a mountain of monkey emojis in my DM is a maths teacher with an open profile. He teaches children!! And knows that he can freely racially abuse without consequence…
— Marcus Rashford MBE (@MarcusRashford) May 27, 2021