Ítalska knattspyrnufélagið Roma er í viðræðum við Arsenal um kaup á miðjumanninum Granit Xhaka. Arsenal vill fá um 21,5 milljón punda fyrir Xhaka en talið er að Roma vilji aðeins greiða 10 milljónir punda fyrir Svisslendinginn.
Sky greinir frá að nýráðinn knattspyrnustjóri Roma, José Mourinho, hafi beðið forráðamenn félagsins sérstaklega um að kaupa Xhaka. Mourinho er mikill aðdáandi Svisslendingsins sem hefur ekki verið sérstaklega vinsæll hjá stuðningsmönnum Arsenal að undanförnu.
Xhaka kom til Arsenal frá Borussia Mönchengladbach árið 2016 fyrir 30 milljónir punda og hefur leikið rúmlega 160 leiki fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Hann var nálægt því að ganga í raðir Hertha Berlín í Þýskalandi í janúar á síðasta ári en að lokum gengu þau félagaskipti ekki upp.