Manchester United þarf að kaupa þrjá leikmenn til að geta barist um enska meistaratitilinn á næstu leiktíð en United endaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð, 12 stigum á eftir nágrönnum sínum í Manchester City.
Það er Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður United, sem er á þessari skoðun en hann nefndi leikmennina í hlaðvarpsþætti sínum Five á dögunum. „Við þurfum hafsent, Marquinhos frá PSG ef það er hægt. Síðan myndi ég vilja Declan Rice [frá West Ham] og Jadon Sancho frá Dortmund. Þetta eru leikmenn sem myndu styrkja United,“ sagði Ferdinand en allir þrír leikmennirnir hafa verið orðaðir við félagsskipti til Old Trafford undanfarið.
United reyndi að kaupa Sancho frá Dortmund eins og frægt er orðið síðasta sumar en án árangurs. Þá hefur miðjumaðurinn Declan Rice slegið í gegn með West Ham undanfarið. „Þetta snýst ekki bara um hversu góðir menn eru í fótbolta heldur hvaða karaktera þú færð inn í búningsklefann,“ bætti Ferdinand við en hann spilaði á Old Trafford frá 2003 til 2014 og vann fjöldan allan af titlum á þeim tíma.