Enski fótboltamaðurinn Fabian Delph var á samfélagsmiðlum ranglega nefndur sá leikmaður Everton sem sætir lögreglurannsókn. Tugir þúsunda samfélagsmiðlanotenda deildu sín á milli röngum skilaboðum um að Delph hefði verið handtekinn eftir húsleit.
Breska götublaðið Sun greinir frá þessu.
Everton hefur sett leikmann í bann vegna lögreglurannsóknar en félagið hefur ekki nefnt leikmanninn á nafn. Samkvæmt heimildum mbl.is er leikmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson.
Lögreglan í Manchester gaf það út í gær að 31 árs gamall karlmaður hefði verið handtekinn í síðustu viku grunaður um kynferðisbrot gegn barni. Húsleit var framkvæmd á heimili mannsins. Sun segir manninn neita ásökunum.
Heimildarmaður The Sun segir að Delph sé alsaklaus og hafi dregist inn í umræðuna þar sem félagið hafi ákveðið að skýra ekki frá því hver umræddur leikmaður sé. Það hafi leitt af sér getgátur á ýmsum vefsíðum og samfélagsmiðlum.
Heimildarmaðurinn segir ennfremur: „Fréttirnar af handtökunni hafa verið mikið áfall fyrir félagið. Liðsfélaga hans grunaði ekkert. Rannsókn málsins stýra sérhæfðir lögreglumenn sem fengu kvörtun fyrir nokkrum vikum. Allir í félaginu eru lamaðir yfir þessum fréttum. Lögreglan ætlar að sjá til þess að allt sé rannsakað til hlítar og engu sleppt.
Leikmönnunum var skýrt frá þessu í gær og þeir eru gjörsamlega miður sín. Sá handtekni er afar vinsæll í leikmannahópnum og það trúir þessu enginn. Leikmennirnir vona að þetta sé allt saman misskilningur eða ruglingur, eða eitthvað slíkt," hefur The Sun eftir umræddum heimildarmanni.