Fabian Delph, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Everton, mun ekki fara með í æfingaferð liðsins í Bandaríkjunum í sumar.
Ástæðan fyrir því er sú að hann var í návígi við aðila sem smitaðist af kórónuveirunni og þarf því að fara í 10 daga sóttkví á heimili sínu.
Delph hefur undanfarna daga á samfélagsmiðlum verið ranglega nefndur sem sá leikmaður Everton sem sætir lögreglurannsókn vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.
Tugir þúsunda samfélagsmiðlanotenda deildu sín á milli röngum skilaboðum um að Delph hefði verið handtekinn eftir húsleit.
Samkvæmt heimildum mbl.is er leikmaðurinn sem um ræðir Gylfi Þór Sigurðsson.