Liðsfélagi Gylfa ósáttur við bólusetningu

Fabian Delph.
Fabian Delph. Ljósmynd/Everton

Fabian Delph, knattspyrnumaður og leikmaður Everton, er ekki sáttur við þrýsting breskra stjórnvalda um að leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar verði skikkaðir í bólusetningu gegn kórónuveirunni.

Þar að auki hafa einhver félagslið í enska boltanum íhugað að setja ákvæði í samning sinna leikmanna um að þeir skuli í bólusetningu, vilji þeir spila með liðum sínum á næstu leiktíð. 

Við það var Fabian Delph ekki sáttur og deildi hann mynd á instagramsíðu sinni þar sem stóð að „nú væri orðin samsæriskenning að telja ónæmiskerfi líkamans fullfært um að gera það sem því var ætlað að gera“.

Breska blaðið The Daily Mail greinir frá.

Fabian Delph er ekki með Everton í Flórída í Bandaríkjunum, þar sem liðið tekur þátt í undirbúningsmóti fyrir komandi leiktíð. Delph var nýlega útsettur fyrir smiti og er því í sóttkví. 

Skilaboðin sem Delph deildi á instagramsíðu sinni eru komin frá bandarísku jurtalækningasamtökunum The Healing Chamber. 

Ranglega ruglað saman við Gylfa

Fabian Delph komst einnig í fréttir nýlega, þar sem hann var sagður öskuillur yfir því að Everton hefði ekki greint skilmerkilega frá því að hann væri ekki sá leikmaður Everton sem grunaður væri um brot gegn barni.

Gylfi Þór Sigurðsson, liðsfélagi Delph hjá Everton, er leikmaðurinn sem um ræðir, að því er heimildir mbl.is herma.

Everton gaf út yfirlýsingu í kjölfar þess að mál Gylfa kom upp, en hann er sagður hafa verið handtekinn af lögregluyfirvöldum í Manchester fyrir áðurnefnt brot gegn barni. Í yfirlýsingunni sagði að samningi 31 árs leikmanns hefði verið rift vegna málsins og að félagið gerði allt til þess að aðstoða við rannsókn lögreglu.

Aðeins eru tveir leikmenn Everton 31 árs, Gylfi og Delph, og því fóru margir að bendla Delph við málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert