Gamla ljósmyndin: Liverpool í Laugardal

Morgunblaðið/Júlíus

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

KR fagnaði 85 ára afmæli félagsins með stæl árið 1984 og fékk enska stórliðið FC Liverpool til að koma til Íslands og leika vináttuleik gegn KR.

Liðin mættust á Laugardalsvelli aðra helgina í ágúst sumarið 1984 en Liverpool hafði orðið Evrópumeistari meistaraliða aðeins þremur mánuðum áður. 

Hvers vegna var auðsótt fyrir KR að fá Liverpool til Íslands? Jú liðin eru tengd böndum í gegnum Evrópukeppnina. Þessi lið skráðu sig í fyrsta skipti til keppni í Evrópukeppni haustið 1964 og drógust saman í 1. umferð Evrópukeppni meistaraliða. KR er því fyrsti andstæðingur þessa heimsfræga liðs í Evrópukeppni. Hefur verið vináttusamband á milli félagana allar götur síðan og voru einmitt tveir áratugir liðnir frá því liðin mættust í Evrópukeppninni. 

KR-ingar sýndu Evrópumeisturunum enga sérstaka kurteisi á Laugardalsvellinum tuttugu árum síðar og náðu 2:0-foyrstu í leiknum en KR var yfir að loknum fyrri hálfleik 1:0. Akureyringurinn Gunnar Gíslason, landsliðsmaður og síðar atvinnumaður, skoraði bæði mörk KR. Michael Robinson og fyrirliðinn Phil Neal skoruðu fyrir Liverpool. 

„Evrópumeistararnir náðu jafntefli“ var fyrirsögn Skúla Unnars Sveinssonar í Morgunblaðinu þriðjudaginn 14. ágúst þar sem leiknum voru gerð góð skil. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Ronnie Whelan láta vaða á mark KR en Jósteinn Einarsson (liggjandi) og Haraldur Haraldsson gera sitt besta til að komast fyrir skotið. Ein skærasta stjarna Liverpool, Kenny Dalglish, fylgist grannt með. Myndin sýnir glöggt hversu vinsælir Adidas World Cup-skórnir voru á níunda áratugnum en þá treystu knattspyrnumenn sér til að spila í svörtum takkaskóm. 

Myndina tók Júlíus Sigurjónsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Á myndinni má sjá að vel var mætt á völlinn. Pollum af Pollamóti KSÍ var til að mynda boðið á leikinn en úrslitakeppni Íslandsmótsins í 6. flokki fór fram í Laugardal sömu helgi og leikurinn fór fram. Var markamaskínan Ian Rush fenginn til að afhenda sigurliðinu verðlaunin á mótinu, fyrst kappinn var á landinu á annað borð. 

Enska úrvalsdeildin hófst í gær og heldur áfram í dag og mun Liverpool heimsækja Norwich City. KR leiku á Íslandsmótinu á mánudagskvöldið og heimsækir HK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert