Morecambe vann glæsilegan 1:0-sigur á Sheffield Wednesday í ensku C-deildinni í fótbolta í gær. Morecambe er eitt minnsta félagið í fjórum efstu deildum Englands, á meðan Sheffield Wednesday er gamalt stórveldi.
Jökull Andrésson er að láni hjá Morecambe frá Reading, sem leikur í B-deildinni, og er óhætt að segja að Mosfellingurinn sé að gera afar góða hluti hjá liðinu, en hann var maður leiksins í gær.
Alls lagði 5.481 stuðningsmaður leið sína á Mazuma-völlinn í Morecambe sem er nýtt félagsmet. Hillsbrough-völlur Sheffield-félagsins tekur um 40.000 áhorfendur.
Jökull naut sín vel fyrir framan stuðningsmennina því hann varði hvað eftir annað vel. Í umfjöllun um leikinn á heimasíðu Morecambe er ritað um sýningu Mosfellingsins, sem hélt sínum mönnum í leiknum áður en sjálfsmark á 64. mínútu reyndist sigurmarkið.
Liðið vann sér óvænt inn sæti í C-deildinni er liðið vann umspil D-deildarinnar á síðustu leiktíð. Jökull lék tvo leiki með liðinu í D-deildinni á síðasta tímabili er hann var einnig að láni. Hann lék 29 leiki með Exeter í sömu deild.