Sádarnir nálgast yfirtöku á Newcastle

Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, er yfir fjárfestingasjóði ríkisins.
Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, er yfir fjárfestingasjóði ríkisins. AFP

Fjárfestahópur sem sádiarabíska ríkið er í forsvari fyrir er nálægt því að ganga frá yfirtöku á enska knattspyrnufélaginu Newcastle United.

Vonir hópsins, ensku úrvalsdeildarinnar og Newcastle standa til þess að yfirtakan verði tilkynnt sem fyrst og jafnvel í dag.

Fjárfestingasjóður Sádi-Arabíu, sem krónprinsinn Mohammed bin Salman er í forsvari fyrir, mun þá eignast 80 prósent ráðandi hlut í félaginu. Peningarnir sem fjárfestahópurinn myndi leggja til félagsins koma því í gegnum sádiarabíska ríkið og ljóst er að hann hefur yfir svimandi háum fjármunum að ráða.

Mike Ashley, núverandi eigandi Newcastle, hefur um langt skeið reynt að selja ráðandi hlut sinn í félaginu og nú er allt útlit fyrir að 14 ára stormasömu eignarhaldi hans ljúki.

Fjárfestahópurinn frá Sádi-Arabíu reyndi á síðasta ári að taka félagið yfir en hætti þá við þar sem eignarhlutur sádiarabíska ríkisins í félaginu hefði orðið þess valdandi að hópurinn þyrfti að fara í gegnum mat úrvalsdeildarinnar á hæfni eigenda, sem hópnum leist ekki á.

Svo virðist sem þetta sé ekki vandamál lengur þar sem grænt ljós hefur fengist frá úrvalsdeildinni á yfirtökuna. Hópurinn segir ríkið nú ekki koma með beinum hætti að yfirtökunni og því sé ekki þörf á þessu hæfnismati.

Þar sem bin Salman er sem áður segir í forsvari fyrir fjárfestingasjóðinn standast þær fullyrðingar hins vegar ekki skoðun, þótt allt útlit sé fyrir að enska úrvalsdeildin ætli að taka þessum skýringum hópsins.

Yfirtakan hefur sætt mikilli gagnrýni í tengslum við hin ýmsu mannréttindabrot sádiarabíska ríkisins í gegnum tíðina. Aftökur, launmorð, ólögmætar handtökur og réttindaleysi kvenna eru þar á meðal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert