Tilþrifin: United fékk fjögur mörk á sig

Manchester United gerði ekki góða ferð á King Power-völlinn í Leicester þegar liðið laut í lægra haldi gegn Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í dag. United tókst að skora tvö mörk en fékk hins vegar á sig fjögur mörk í afar fjörugum leik.

Gestirnir í United tóku forystuna með stórglæsilegu marki Mason Greenwood.

Youri Tielemans mátti ekki minni maður vera og jafnaði með hreint út sagt mögnuðu marki.

Caglar Söyuncu kom heimamönnum í forystu í fyrsta skipti í leiknum með skoti af stuttu færi seint í leiknum og við það opnuðust flóðgáttir.

Marcus Rashford, sem sneri aftur eftir axlarmeiðsli þegar hann kom inn á sem varamaður, slapp skömmu síðar í gegn og skoraði með laglegri afgreiðslu áður en Jamie Vardy kom Leicester í 3:2 strax í næstu sókn.

Patson Daka batt svo endahnútinn með því að koma Leicester í 4:2 þegar hann skoraði af örstuttu færi í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Mörkin sex ásamt helstu færum leiksins má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka