Tottenham og Kane hrukku í gang

Harry Kane sækir að Jamaal Lascelles á St. James Park …
Harry Kane sækir að Jamaal Lascelles á St. James Park í dag. AFP

Tottenham sneri taflinu við og vann 3:2-sigur gegn Newcastle á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag eftir að heimamenn hófu leik með látum.

Newcastle var að spila sinn fyrsta leik eftir að félagið var það ríkasta í heimi í kjölfar þess að sádi­ar­ab­íski krón­prins­inn Mohammed bin Salm­an keypti það á dögunum. Stemningin var af þeim sökum mikil á áhorfendapöllunum og ekki versnaði staðan þegar Callum Wilson kom heimamönnum í forystu með skallamarki strax á annarri mínútu.

Gestirnir áttu þó eftir að svara fyrir sig. Tanguy Ndombélé jafnaði metin á 17. mínútu áður en fyrirliðinn Harry Kane vippaði boltanum í netið á 22. mínútu og skoraði þar jafnframt sitt fyrsta deildarmark á tímabilinu.

Gera þurfti langt hlé á leiknum í fyrri hálfleik eftir að áhorfandi hneig niður í stúkunni. Eftir að tekist hafði að hlúa að honum var hann sendur á næsta sjúkrahús og hægt var að halda leik áfram. Son Heung-Min kom þá Tottenham í tveggja marka forystu, 3:1, með marki af stuttu færi í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Jonjo Shelvey, varamaður Newcastle, tókst að næla sér í rautt spjald sjö mínútum fyrir leikslok en skömmu síðar skoraði Eric Dier, varnarmaður Tottenham, sjálfsmark, 3:2, sem blés smá spennu í lokamínúturnar. Ekki tókst heimamönnum þó að kreista fram jöfnunarmark.

Tottenham er nú með 15 stig í 5. sæti en Newcastle er áfram við botninn með þrjú stig í 19. sæti en liðið hefur enn ekki unnið deildarleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka