Arsenal og Crystal Palace skildu jöfn, 2:2, í æsispennandi leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld þar sem heimamenn í Arsenal jöfnuðu metin á fimmtu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.
Heimamenn í Arsenal tóku forystuna strax á áttundu mínútu.
Í kjölfar hornspyrnu náði Nicolas Pépé boltanum, tók snyrtilegan þríhyrning við Takehiro Tomiyasu og tók gott skoti sem Vicente Guaita varði vel til hliðar en Pierre-Emerick Aubameyang var hins vegar mættur sem gammur á fjærstöngina og stýrði boltanum laglega á lofti í netið, 1:0.
Eftir lofsamlega byrjun Arsenal hófu gestirnir í Palace að vinna sig betur inn í leikinn og fengu nokkur prýðis skotfæri.
Þeim auðnaðist þó ekki að skora fyrir leikhlé en jöfnuðu metin hins vegar snemma í síðari hálfleik.
Jordan Ayew vann þá boltann af Thomas Partey rétt fyrir framan vítateig Arsenal, renndi boltanum til Christian Benteke sem fór laglega framhjá Gabriel í teignum og skoraði með glæsilegu skoti niður í nærhornið, 1:1.
Á 73. mínútu tók Palace forystuna. Conor Gallagher vann boltann af Albert Sambi Lokonga á miðsvæðinu og eftir samleik milli Gallagher og Michael Olise rennd sá síðarnefndi boltanum til Odsonne Édouard sem lék með boltann inn í vítateig og þrumaði honum í slána og inn, 1:2.
Leikmenn Arsenal reyndu hvað þeir gátu að jafna metin og uppskáru loks jöfnunarmark á fimmtu mínútu uppbótartíma.
Arsenal fékk þá hornspyrnu sem var skölluð frá, Pépé náði boltanum aftur, gaf fyrir, boltinn var skallaður út, Ben White náði skotinu og Guaita varði boltann til hliðar þar sem varamaðurinn Alexandre Lacazette var mættur og þrumaði boltanum í netið af stuttu færi, 2:2.
Þetta reyndist síðasta spyrna leiksins og jafntefli því niðurstaðan.