Leikmaður nýliðanna greindist með krabbamein

Dan Barden, sem er á mála hjá Norwich City, greindist …
Dan Barden, sem er á mála hjá Norwich City, greindist með eistnakrabbamein. AFP

Velski markvörðurinn Dan Barden, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Norwich City, hefur greinst með eistnakrabbamein.

Greint var frá þessu á heimasíðu Norwich í dag.

Barden er tvítugur og hefur frá því í sumar verið á láni hjá skoska félaginu Livingston, þar sem hann var búinn að spila einn leik í skoska deildabikarnum.

Hann lék fjóra leiki í öllum keppnum með Norwich á síðasta tímabili þegar liðið vann ensku B-deildina og tryggði sér þar með sæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er búinn að vera mjög erfiður og krefjandi tími, en stuðningur fjölskyldu minnar, vina og kollega hefur hjálpað mér að komast í gegnum síðustu vikur.

Upphaflega greiningin reyndist mér mikið áfall, en það jákvæða er að meinið greindist snemma og batahorfur og áætlanir um næstu skref hafa öll verið mjög jákvæð,“ sagði Barden í samtali við heimasíðu Norwich.

„Ég er bjartsýnn og er með jákvætt hugarfar. Ég er sannfærður um að ég muni sigrast á þessu og að ég muni komast aftur út á völlinn að gera það sem ég elska bráðlega,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka