Enska knattspyrnufélagið Newcastle United hefur biðlað til stuðningsmanna sinna að klæðast ekki hefðbundnum arabískum klæðnaði eða höfuðfatnaði sem er algengt að nota í miðausturlöndum.
Eftir að sádiarabískur fjárfestahópur eignaðist meirihluta í félaginu fyrr í mánuðinum hefur fjöldi stuðningsmanna gripið til þess að skella viskustykkjum, dúkum eða lökum á höfuð sér og/eða klæðast fötum sem karlmenn í Arabíulöndum klæðast gjarna.
„Newcastle United biður stuðningsmenn vinsamlegast að hætta að klæðast hefðbundnum arabískum klæðnaði eða höfuðfatnaði sem sækir innblástur til miðausturlanda á leikjum ef þeir leggja það ekki í vana sinn að klæðast slíkum fatnaði.
Enginn á meðal nýju eigendanna hefur á nokkurn hátt móðgast yfir því að stuðningsmenn hafi fagnað á þennan hátt. Hins vegar er sá möguleiki til staðar að það að klæða sig á þennan hátt sé menningarlega óviðeigandi og geti því móðgað annað fólk,“ sagði í yfirlýsingu á twitteraðgangi Newcastle.