Arsenal ekki í vandræðum með Villa

Emile Smith Rowe fagnar marki sínu í kvöld.
Emile Smith Rowe fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Arsenal vann góðan 3:1 sigur á heimavelli gegn Aston Villa í fyrsta leik 9. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld.

Um miðjan fyrri hálfleikinn kom Thomas Partey heimamönnum yfir með skalla eftir hornspyrnu Emile Smith Rowe frá vinstri.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Arsenal svo dæmda vítaspyrnu eftir að Craig Pawson hafði ráðfært sig við VAR-skjáinn, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Matt Targett hefði fellt Alexandre Lacazette innan vítateigs.

Pierre-Emerick Aubameyang steig á vítapunktinn en Emiliano Martínez, fyrrverandi leikmaður Arsenal, varði frá honum. Því miður fyrir hann og sem betur fer fyrir Aubameyang barst boltinn beint til hans og náði hann að skora í annarri tilraun.

Staðan því 2:0 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleik skoraði Smith Rowe þriðja mark Arsenal eftir sendingu frá Aubameyang.

Seint í leiknum, á 82. mínútu, minnkaði Villa muninn. Hinn ungi og efnilegi Jacob Ramsey skoraði þá eftir sendingu Leon Bailey.

Það var þó um seinan fyrir gestina og flottur tveggja marka sigur Arsenal niðurstaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert