Bruno Fernandes, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er að glíma við smávægileg meiðsli eftir leik United og Atalanta í Meistaradeildinni á Old Trafford á miðvikudaginn síðasta.
Þetta staðfesti Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, á blaðamannafundi liðsins í dag en United tekur á móti Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford á sunnudaginn kemur.
„Fótbolti er eins og hann og menn fá högg hér og þar í hita leiksins,“ sagði Solskjær.
„Það eru tveir til þrír leikmenn sem fengu högg í þessum leik og Bruno er einn þeirra. Á sama tíma ætlar hann sér að gera allt til þess að verða klár í slaginn á sunnudaginn.
Ég vonast að sjálfsögðu til þess að geta valið alla mína bestu leikmenn fyrir leikinn gegn Liverpool en það gæti líka verið að tveir til þrír þeirra verði fjarverandi,“ bætti Solskjær við.