„Fáum okkur einn bjór á leiðinni heim“

Klopp fagnar sigrinum í dag.
Klopp fagnar sigrinum í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool var að vonum himinlifandi eftir 5:0 sigur á erkifjendunum í Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í dag. Klopp var til viðtals hjá Sky Sports eftir leik.

„Ég átti ekki von á þessu en það sem við gerðum á síðasta þriðjungnum í dag var algjörlega ótrúlegt. Hvernig við pressuðum þá í fyrri hálfleik, unnum boltann á góðum stöðum og skoruðum frábær mörk var frábært.“

„Þetta er frábært. Við höfum alltaf viljað skrifa okkar sögu og strákarnir kláruðu fallegan part af henni í dag.“

James Milner og Naby Keita fóru báðir meiddir af velli í leiknum.

„Milner meiddist aftan í læri. Við þurfum að sjá til með Naby. Hann fékk auðvitað takka af fullum krafti í sköflunginn og við þurfum að sjá til með það. Hann leit út fyrir að vera í lagi inni í klefa en svona meiðsli koma oft ekki í ljós fyrr en degi eða tveimur eftir að þau gerast svo við sjáum til.“

Aðspurður um frammistöðu Mohamed Salah í leiknum var Klopp hálf orðlaus.

„Hvað er hægt að segja? Hann er alltaf á réttum stað og klárar færin frábærlega. Í fimmta markinu er sendingin frá Henderson frábær en Salah er bara mættur. Þess vegna skorar hann öll þessi mörk. Hann er í frábæru formi og hann glímir mjög vel við alla umræðuna sem er í gangi með hann. Hann er að njóta sín í botn og megi það haldast þannig sem lengst.“

„Stigin þrjú eru það mikilvægasta gegn alvöru andstæðingi. Sjálfstraustið fylgir auðvitað með en við þurfum að passa að við höldum okkur á jörðinni. Það er margt sem við getum gert betur en 5:0, ég gæti ekki verið glaðari!“

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Fram kom í viðtalinu að þetta hefði verið 200. sigur Klopp sem þjálfari Liverpool og væri hann sá fljótasti í sögu félagsins að ná þeim áfanga.

„Það er stórt. Ég tel mig vera frekar jákvæða manneskju en ég er með nokkur töp í kollinum sem mér fannst vera algjör óþarfi, en við unnum í dag sem þýðir einn bjór í rútunni á leiðinni heim,“ sagði Klopp og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert