Graeme Souness, fyrrverandi leikmaður Liverpool og núverandi sparkspekingur, segir að Mohamed Salah, sóknarmaður félagsins, sé alveg einstaklega eigingjarn leikmaður.
„Ég er sammála Jürgen Klopp að Mohamed Salah hafi verið besti leikmaður heims á þessu tímabili.
Hann er líklega gráðugasti leikmaður sem ég hef séð. Öll stærstu nöfnin eru það að einhverju leyti en hann er einstaklega eigingjarn,“ skrifaði Souness í pistli í Sunday Times.
Þrátt fyrir þessa skoðun Souness hefur Salah lagt upp fjölda marka fyrir liðsfélaga sína á ferli sínum hjá Liverpool, 40 talsins í 153 deildarleikjum, þar af fjögur í átta leikjum á þessu tímabili. Sannarlega er hann þó meira í því að skora sjálfur þar sem hann er með 102 mörk í leikjunum 153.
„Persónuleg markmið eru honum mikilvæg og hann skýtur úr öllum mögulegum færum, sem pirrar liðsfélaga hans stundum, sérstaklega [Sadio] Mané. Aðrir leikmenn taka því vegna þess að hann er svo góður.
Þegar hann gefur boltann ekki þvert fyrir markið er hann annað hvort að skora eða láta markverði vinna vinnuna sína svo það sé hægt að pota frákastinu í netið, sem gerir það erfitt fyrir nokkurn að gagnrýna hann,“ skrifaði Souness einnig og bætti við:
„Hann gæti jafnvel tekið því sem hrósi að mér finnist hann vera eigingjarnasti leikmaður sem ég hef séð því hann er markavél.“
Samningur Salah hjá Liverpool rennur út sumarið 2023 og hafa samningaviðræður gengið erfiðlega þar sem hann er sagður vilja himinhá laun.
„Ég mun ekki giska á hvað hann er að fara fram á en Liverpool ætti að veita honum það.
Það er í þeirra hag að borga honum eins mikið og þeir hafa ráð á og einnig hagur Salah að vera áfram hjá félaginu þar sem hann hefur augljóslega átt besta hluta ferils síns,“ skrifaði Souness.