Richard Arnold, framvkæmdastjóri enska knattspyrnufélagsins Manchester United, mun funda með Joel Glazer, eiganda félagsins, í dag þar sem framtíð Ole Gunnars Solskjærs verður rædd. Það er breski miðillinn The Guardian sem greinir frá þessu.
United tapaði illa fyrir erkifjendum sínum í Liverpool í gær í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í Manchester en leiknum lauk með 5:0-sigri Liverpool.
Spilamennska liðsins í undanförnum leikjum hefur ekki verið góð en United er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og hefur tapað þremur þeirra.
Þá greinir The Guardian einnig frá því að leikmannahópur United sé að missa trúna á hæfni Solskjærs sem þjálfara og séu undir það búnir að nýr stjóri taki við liðinu.
Solskjær nýtur hins vegar virðingar hjá bæði leikmönnum og starfsliði félagsins en það er fyrst og fremst taktísk hugsun þjálfarans sem leikmennirnir hafa ekki trú á að því er fram kemur í frétt The Guardian.
Breskir veðbankar spá því að Solskjær eigi ekki mikið eftir í starfi en stuðullinn á að hann verði rekinn hjá SkyBet er 1,25.