Cristiano Ronaldo, einn besti knattspyrnumaður heims og leikmaður Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, setti inn áhugaverða færslu á samfélagsmiðilinn Instagram í nótt.
United þurfti að sætta sig við 0:5-tap gegn erkifjendum sínum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær á heimavelli United, Old Trafford.
Ronaldo var í byrjunarliði United í leiknum en náði ekki að sýna sitt rétta andlit, frekar en aðrir leikmenn liðsins.
„Stundum tekst okkur ekki að ná í þau úrslit sem við ætlum okkur,“ skrifaði Ronaldo á Instagram.
„Stundum eru úrslitin ekki okkur í hag og þetta tap skrifast algjörlega á okkur og bara okkur. Það er engum öðrum um að kenna.
Stuðningsmennirnir voru enn á ný algjörlega frábærir og þeir styðja okkur alltaf sama hvað. Þeir eiga svo miklu betra skilið og það er undir okkur komið að snúa þessu við.
Tíminn er núna!“ bætti Portúgalinn við en yfir 7,5 milljónir manns hafa lækað færslu Ronaldos, sem kom inn í gærkvöldi.