Enskir veðbankar spá því að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, verði rekinn úr starfi á næstu dögum.
United tapaði illa gegn erkifjendum sínum í Liverpool í gær í ensku úrvalsdeildinni en leiknum, sem fram fór á Old Trafford í Manchester, lauk með 5:0-sigri Liverpool.
Gengi United í undanförnum leikjum hefur verið afleitt og liðið er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum. United hefur tapað þremur þessara leikja og gert eitt jafntefli, gegn Everton á Old Trafford 2. október.
Stuðullinn á að Solskjær verði rekinn er 1,25 hjá breska veðbankanum SkyBet en það telst ekki hár stuðull í veðmálaheiminum.
Norðmaðurinn, sem er 48 ára gamall, tók tímabundið við stjórnartaumunum hjá United í desember 2018 þegar José Mourinho var rekinn. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við United í mars 2019.