Ferguson mætti á krísufund í Manchester

Sir Alex Ferguson var ekki skemmt í stúkunni á Old …
Sir Alex Ferguson var ekki skemmt í stúkunni á Old Trafford um nýliðna helgi. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, talaði fyrir því á fundi með forráðamönnum enska félagsins í dag að Ole Gunnar Solskjær fengi meiri tíma með liðið. Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu.

Framtíð Solskjærs hefur verið mikið í umræðunni síðan á sunnudaginn þegar United tapaði illa fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en leiknum lauk með 5:0-sigri Liverpool á Old Trafford.

Ferguson á sæti í stjórn félagsins en Joel Glazer, eigandi félagsins, fundaði í gær með framkvæmdastjóranum Richard Arnold um framtíð Solskjærs.

Í morgun bárust fréttir af því að Solskjær fengi tækifæri til þess að snúa gengi liðsins við gegn Tottenham um næstu helgi en liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni í London á laugardaginn kemur.

United hefur gengið bölvanlega í síðustu leikjum en liðið er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og hefur tapað þremur þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert