Viðskiptajöfurinn David Henderson var í dag fundinn sekur um að hafa með gáleysi sínu stofnað flugvél, með knattspyrnumanninn Emiliano Sala og flugmanninn David Ibbotson innanborðs, í hættu en flugvélin brotlenti á leið sinni frá Frakklandi til Cardiff með þeim afleiðingum að bæði Ibbotson og Sala létust.
Atvikið átti sér stað í janúar 2019 en Sala var að ganga til liðs við Cardiff, sem þá lék í ensku úrvalsdeildinni, frá franska 1. deildarfélaginu Nantes.
Henderson sá um að skipuleggja flugið, sem var að nóttu til, en Ibbotson hafði ekki flugmannsréttindi til þess að fljúga að nóttu til og Henderson var meðvitaður um það. Flugvélin var eins hreyfla vél og var flugleyfi Ibbotson einnig runnið út.
Stuttu eftir að flugvélin brotlenti sendi Henderson skilaboð á þá sem vissu af flugferðinni og bað þá að þegja yfir þeim upplýsingum um að Ibbotson hafði ekki leyfi til að fljúga vélinni.
Henderson á von á fangelsisdómi eftir að hafa verið fundinn sekur en dómur í málinu verður kveðinn upp hinn 12. nóvember.