Raphaël Varane, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er klár í slaginn eftir meiðsli. Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.
Varane meiddist í landsliðsverkefni með Frakklandi í landsleikjaglugganum í október og hefur því misst af síðustu þremur leikjum United.
Í þessum tveimur leikjum hefur United fengið á sig ellefu mörk og því ljóst að liðið hefur saknað hans mikið en hann gekk til liðs við United frá Real Madrid í sumar.
United borgaði 34 milljónir punda fyrir miðvörðinn sem er 28 ára gamall en hann hefur verið lykilmaður í franska landsliðinu undanfarin ár.
United heimsækir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn kemur en liðið er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og hefur tapað þremur þeirra.
Fari svo að United tapi um helgina gæti Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, verið rekinn en hann er sagður vera á síðasta séns hjá félaginu.