Harry Maguire fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Manchester United segir að leikmenn liðsins hafi brugðist stjóranum og stuðningsfólki félagsins í leiknum gegn Liverpool en kveðst sannfærður um að þeir geti kvittað fyrir það í leiknum við Tottenham á morgun.
United sækir þá Tottenham heim í síðdegisleik laugardagsins í ensku úrvalsdeildinni en hann hefst klukkan 16.30.
„Við leikmennirnir brugðumst þjálfarateyminu, við brugðumst starfsliðinu og við brugðumst félaginu, en það sem skiptir mestu máli er að við brugðumst stuðningsfólki félagsins," sagði Maguire á fréttamannafundi United nú í ha´deginu.
„Við vitum að við þurfum að bæta okkar leik og ég get fullvissað ykkur um að við gerum allt sem við getum til þess og gefum allt okkar í að bæta frammistöðu okkar. Ég er viss um að við munum komast í gegnum þennan erfiða kafla og ná okkur á strik á ný.
Við eigum fullt af leikjum framundan og við vitum að við getum vel náð góðum árangri á þessu keppnistímabili. Það er mikil reynsla í hópnum og fullt af leiðtogum í liðinu. Við erum mannlegir og tökum því ef við erum gagnrýndir, en eitt er á hreinu og það er að við stöndum allir í þessu saman. Það er engum kennt um neitt. Hver og einn þarf að líta í eigin barm og finna út hvernig hann getur bætt sig og bætt liðið. Ég hef gert það og er viss um að það hefur hver einasti leikmaður gert. Það er eina leiðin sem er fær. Við stöndum saman, höldum áfram og bætum okkur," sagði Maguire.