Andy Townsend, einn af sparkspekingum ensku úrvalsdeildarinnar, er ekki sannfærður um að Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sé rétti maðurinn til þess að snúa slæmu gengi liðsins við.
Það er mikil pressa á Solskjær sem er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum en United hefur tapað þremur þessara leikja.
Liðið heimsækir Tottenham á Tottenham Hotspur-völlinn í London í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun og það er því mikið undir hjá norska stjóranum á morgun sem er sagður vera á síðasta séns hjá félaginu.
„Það er mín tilfinning að forráðamenn félagsins voni heitt og innilega að Solskjær sé rétti maðurinn til þess að koma félaginu aftur í fremstu röð,“ sagði Townsend.
„Ég er hins vegar ekki sannfærðu um hæfni hans sem knattspyrnustjóra, í augnablikinu, og ég er ekki viss um að hann sé rétti maðurinn til þess að ná því besta út úr leikmannahópnum,“ bætti Townsend við.