Ræddi við Ferguson í vikunni

Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni um síðustu helgi.
Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni um síðustu helgi. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, kveðst hafa rætt við Alex Ferguson, fyrrverandi yfirmann sinn og stjóra félagsins til 26 ára, eftir skellinn gegn Liverpool um síðustu helgi.

Solskjær sagði aðspurður á fréttamannafundi í dag að þeir hefðu hist í vikunni. „Já, við hittumst og ræddum málin stutta stund. Ég upplifði erfið augnablik þegar ég var leikmaður liðsins og það sama er að segja eftir að ég varð knattspyrnustjóri. Ég hef þurft að glíma við áföll, það hafa komið upp tvær eða þrjár krísur, í það minnsta, síðan ég tók við starfinu. En ég er alltaf til í að taka á hlutunum og bíta frá mér á ný," sagsði Solskjær.

„Nú þurfum við að svara fyrir okkur og það er mitt hlutverk að koma leikmönnunum í rétt hugarástand á ný. Ég er ábyrgur fyrir því hvernig við bregðumst við, hvernig við stöndum okkur, og við höfum unnið hörðum höndum að þessu á æfingasvæðinu. Ég hef góða tilfinningu fyrir því að leikmennirnir séu tilbúnir  til að leggja allt sitt í þetta, eins og þeir gera alltaf. Gegn Liverpool fór ekkert samkvæmt áætlun og við vorum langt frá okkar besta," sagði Solskjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert