Brendan Rodgers er kominn efst á lista hjá forráðamönnum Manchester United sem mögulegur arftaki Ole Gunnars Solskjærs knattspyrnustjóra, samkvæmt heimildum ESPN.
Solskjær er valtur í sessi eftir skellinn gegn Liverpool, 0:5, um síðustu helgi og Ítalinn Antonio Conte hefur verið sterklega orðaður við starfið síðustu daga.
ESPN segir að Rodgers, stjóri Leicester, sé samkvæmt öruggum heimildum mjög hátt metinn af forráðamönnum United eftir frammistöðu sína þar síðustu árin og áður hjá Celtic og Liverpool. Sérstaklega hvernig hann vinni með unga leikmenn og láti lið sín spila árangursríkan sóknarleik.
Solskjær stýrir United gegn Tottenham á morgun og án efa líka gegn Atalanta í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn en viðbúið er að forráðamenn Manchester United skipti um stjóra fljótlega ef Norðmanninum tekst ekki að rétta við gengi liðsins.