„Tottenham vann nokkra 3:0-sigra í upphafi tímabils en þeir voru samt sem áður ekki sannfærandi,“ sagði Andy Townsend, einn af sérfræðingum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, um úrvalsdeildarlið Tottenham.
Tottenham tekur á móti Manchester United í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun á Tottenham Hotspur-vellinum í London en bæði lið hafa verið í basli í undanförnum leikjum sínum.
Það er farið að hitna undir bæði Nuno Santo, stjóra Tottenham, og Ole Gunnar Solskjær, stjóra United, og því skipta úrslitin á morgun öllu máli fyrir báða stjóra.
„Síðan þá hefur liðið verið í basli en þeir eru með frábæra leikmenn innanborðs, á því leikur enginn vafi,“ sagði Townsend.
„Liðið er ekki að spila eins og Santo vill sjá liðið spila og um leið og hann fer að setja sitt handbragð á liðið þá mun Tottenham rétta úr kútnum að mínu mati,“ bætti Townsend við.