Arsenal vann frábæran 2:0 útisigur gegn Leicester City í fyrsta leik 10. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í hádeginu í dag.
Gestirnir í Arsenal mættu snælduvitlausir til leiks og mátti minnstu muna að Daniel Amartey skoraði sjálfsmark strax á fyrstu mínútu.
Skytturnar settu heimamenn í Leicester undir gífurlega pressu og komust yfir strax á fimmtu mínút. Þá skoraði Gabriel með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu Bukayo Saka frá hægri.
Arsenal hélt áfram að pressa hátt og fá góð færi. Úr einu þeirr tvöfaldaði Emile Smith Rowe forystuna á 18. mínútu. Boltinn barst þá til hans í vítateignum og hann lagði boltann þéttingsfast í netið.
Eftir annað markið minnkuðu gestirnir pressuna talsvert og hægt og bítandi unnu Leicester sig betur inn í leikinn.
Undir lok fyrri hálfleiks var James Maddison hársbreidd frá því að minnka muninn þegar frábær aukaspyrna hans virtist stefna í netið en Aaron Ramsdale varði stórkostlega upp í þverslánna, Jonny Evans renndi sér í frákastið en Ramsdale varði aftur vel.
Staðan því 2:0, gestunum í Arsenal í vil, í hálfleik.
Í síðari hálfleik byggði Leicester ofan á góðan lokakafla fyrri hálfleiks og réði lögum og lofum það sem eftir lifði leiks.
Liðið fékk fjölda góðra færa, varamaðurinn Harvey Barnes til að mynda þrjú talsins, en Ramsdale átti sannkallaðan stórleik í marki Arsenal og lokaði því alfarið.
Mörkin urðu því ekki fleiri og sterkur tveggja marka útisigur Arsenal niðurstaðan.
Arsenal flýgur upp töfluna og er nú komið upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Leicester fer á meðan niður í 10. sætið.
Fylgst var með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is. Hana má sjá hér að neðan.