Liverpool missti niður tveggja marka forystu

Leandro Trossard fagnar jöfnunarmarki sínu.
Leandro Trossard fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP

Liverpool og Brighton & Hove Albion skildu jöfn, 2:2, í hörkuleik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Liverpool komst í 2:0 en missti niður forskot sitt.

Leikurinn fór afar fjörlega af stað þar sem Solly March slapp einn í gegn á þriðju mínútu en Alisson varði vel frá honum.

Strax í næstu sókn fékk Mohamed Salah langa sendingu frá Virgil van Dijk, lék með boltann inn í vítateig, lagði hann út á fyrirliðann Jordan Henderson sem kom á ferðinni og þrumaði boltanum í fjærhornið með hnitmiðuðu skoti úr D-boganum.

Staðan orðin 1:0 eftir fjórar mínútur og tuttugu mínútum síðar tvöfaldaði Liverpool forystuna. Alex Oxlade-Chamberlain átti þá frábæra fyrirgjöf á Sadio Mané sem skallaði boltann í netið af stuttu færi.

Skömmu áður hafði Alisson varið gott skot Yves Bissouma í stöngina og aftur fyrir.

Mané skoraði aftur á 33. mínútu en það mark var dæmt af eftir að VAR skoðaði atvikið betur þar sem boltinn fór af höndinni á Mané og í netið.

Skömmu fyrir leikhlé minnkuðu gestirnir í Brighton muninn. March gaf þá boltann út á Enock Mwepu sem skoraði með stórglæsilegu skoti fyrir utan teig, yfir Alisson sem stóð framarlega í markinu.

Staðan því 2:1 í leikhléi, Liverpool í vil, eftir afskaplega fjörugan fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki síður fjörlegur og eftir að bæði lið höfðu fengið nokkur góð færi voru það gestirnir í Brighton sem jöfnuðu metin um miðjan hálfleikinn.

Robert Sánchez átti þá laglega sendingu á vinstri kantinn á Alexis Mac Allister, sem kom boltanum á Adam Lallana sem hafði mikið pláss, lagði boltann á Leandro Trossard sem var einn gegn Alisson og skoraði af öryggi á 65. mínútu, 2:2.

Það sem eftir lifði leiks voru gestirnir sterkari aðilinn og gerðu sig nokkrum sinum líklega til að skora þriðja mark sitt.

Allt kom þó fyrir ekki og sættust liðin á sanngjarnt jafntefli.

Sadio Mané kemur Liverpool í 2:0.
Sadio Mané kemur Liverpool í 2:0. AFP
Leikmenn Liverpool fagna laglegu marki Jordan Henderson.
Leikmenn Liverpool fagna laglegu marki Jordan Henderson. AFP
Liverpool 2:2 Brighton opna loka
90. mín. Tariq Lamptey (Brighton) fær gult spjald Fyrir töf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert