Palace skellti City – fyrsti sigur Burnley

Conor Gallagher fagnar marki sínu gegn Manchester City í dag.
Conor Gallagher fagnar marki sínu gegn Manchester City í dag. AFP

Crystal Palace gerði sér lítið fyrir og lagði Englandsmeistara Manchester City að velli, 2:0, á Etihad-vellinum í Manchester í ensku úrvalsdeildinni í dag. Á sama tíma vann Burnley sinn fyrsta sigur í deildinni á tímabilinu og Chelsea styrkti stöðu sína á toppnum.

Wilfried Zaha kom gestunum í Palace yfir strax á sjöttu mínútu.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Aymeric Laporte beint rautt spjald eftir að hafa togað Zaha niður sem aftasti maður.

Gabriel Jesus virtist vera að jafna metin fyrir City eftir klukkutíma leik en eftir athugun í VAR var Jesus dæmdur rangstæður.

Á 88. mínútu innsiglaði Conor Gallagher svo sigur Palace.

Burnley var komið í 3:0 eftir 36 mínútna leik þegar nýliðar Brentford komu í heimsókn á Turf Moor. Chris Wood, Matthew Lowton og Maxwel Cornet voru allir á skotskónum.

Í síðari hálfleik minnkaði Saman Ghoddos muninn fyrir Brentford en fleiri urðu mörkin ekki og kærkominn 3:1 sigur Burnley, þeirra fyrsti á tímabilinu, staðreynd.

Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn í lið Burnley.

Chelsea vann öruggan 3:0 útisigur gegn Newcastle United. Fyrsta markið kom ekki fyrr en á 65. mínútu en eftir það var eftirleikurinn auðveldur.

Vængbakvörðurinn Reece James skoraði fyrstu tvö mörkin og Jorginho innsiglaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu.

Eftir sigurinn er Chelsea áfram á toppi deildarinnar en nú með þriggja stiga forystu á Liverpool sem missteig sig gegn Brighton.

Þá vann Southampton sterkan útisigur gegn Watford þar sem Ché Adams skoraði sigurmark Dýrlinganna á 20. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert