„Auðvitað erum við sáttir með 3:0. David de Gea þurfti ekki að verja neitt,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, eftir sannfærandi 3:0-sigur liðsins á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Cristiano Ronaldo skoraði fyrsta markið með glæsilegu skoti á lofti og Norðmaðurinn hrósaði sóknarmanninum sínum. „Þetta voru frábær mörk. Fyrsta markið var risastórt. Mögnuð sending hjá Bruno og Ronaldo er sá besti. Þvílíkt mark,“ sagði Solskjær.
Hann segir úrslitin í kvöld ekki bæta upp fyrir 0:5-tapið á heimavelli gegn Liverpool í síðustu umferð. „Að sjálfsögðu ekki. Þau úrslit verða alltaf í sögubókunum. Það var einn af okkar verstu dögum. Fótboltinn breytist hinsvegar hratt,“ sagði Solskjær.