Manchester United vann sanngjarnan 3:0-útisigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Leikmenn United voru betri frá fyrstu mínútu og skapaði Tottenham sér varla færi allan leikinn, en liðið átti ekki eitt einasta skot á markið.
Fyrsta markið gerði Cristiano Ronaldo á 39. mínútu með glæsilegu viðstöðulausu skoti eftir sendingu frá Bruno Fernandes. Ronaldo var aftur á ferðinni á 64. mínútu er hann átti glæsilega sendingu á Edinson Cavani sem skoraði af öryggi, einn gegn Hugo Lloris í marki Tottenham.
Leikmenn United voru ekki hættir því varamaðurinn Marcus Rashford gulltryggði sannfærandi sigur á 86. mínútu er hann slapp í gegn eftir sendingu frá Nemanja Matic og skoraði.
Sigurinn var kærkominn fyrir Manchester-liðið eftir 0:5-skellinn á heimavelli gegn Liverpool í síðustu umferð en Tottenham hefur tapað tveimur deildarleikjum í röð.
Manchester United fór með sigrinum upp í 17 stig og í fimmta sæti. Tottenham féll niður í það níunda, en þar er liðið með 15 stig.