Þarf á nýrri lifur að halda

Kieron Dyer, fyrir miðju, við störf sem sparkspekingur á leik …
Kieron Dyer, fyrir miðju, við störf sem sparkspekingur á leik Newcastle United og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni fyrir tveimur vikum. AFP

Kieron Dyer, fyrrverandi leikmaður Newcastle United, West Ham United og QPR í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, þarf á lifrarígræðslu að halda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ipswich Town, uppeldisfélagi Dyer þar sem hann er þjálfari U23-liðs karla.

Síðastliðinn miðvikudag var Dyer fluttur á spítala og greindist þar með PSC-lifrarbilun (e. primary sclerosing cholangitis).

 „Kieron hefur átt í vandræðum með lifrina sína undanfarin tvö ár og þarf nú á ígræðslu að halda,“ sagði í tilkynningu Ipswich.

Hann bíður nú eftir niðurstöðum úr rannsóknum sem munu segja til um hvenær hann þarf að fá nýja lifur.

„Því miður var ég áður búinn að greinast með vandamál í lifrinni sem myndi einn daginn leiða til þess að ég þyrfti á ígræðslu á að halda.

Ég lít á sjálfan mig sem mjög jákvæða manneskju sem mun komast yfir þennan smávægilega hjalla. Ég er mjög þakklátur félaginu, stuðningsmönnum og almenningi fyrir stuðninginn síðastliðna viku,“ sagði Dyer sjálfur.

Dyer í leik með QPR fyrir áratug.
Dyer í leik með QPR fyrir áratug. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert