Leeds vann botnslaginn

Raphinha skoraði laglegt mark í dag.
Raphinha skoraði laglegt mark í dag. AFP

Leeds United vann mikilvægan 2:1 útisigur á botnliði Norwich City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag og kom sér þannig upp úr fallsæti á ný.

Eftir markalausan fyrri hálfleik opnuðust flóðgáttir við að Leeds tók forystuna á 56. mínútu.

Raphinha fékk þá boltann á hægri kantinum, lék inn á vítateig, fór auðveldlega fram hjá Andrew Omobamidele og svo Grant Hanley áður en hann kom boltanum í netið fram hjá markverðinum Tim Krul og tveimur varnarmönnum Norwich.

Strax í næstu sókn fékk Norwich hornspyrnu. Hana tók Milot Rashica og rataði spyrnan beint á kollinn á Omobamidele sem slapp frá Diego Llorente og skallaði boltann glæsilega í þverslána og inn.

Staðan orðin 1:1 á 58. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Rodrigo Moreno sigurmark Leeds.

Hann fékk þá boltann fyrir utan teig, fékk að athafna sig þar, skaut að marki en hitti boltann ekki sérlega vel. Það kom þó ekki að sök því Krul varði boltann klaufalega í netið.

Fleiri urðu mörkin ekki og góður sigur Leeds kemur liðinu aftur upp í 17. sætið, þar sem liðið er með 10 stig líkt og Watford og Aston Villa í sætunum fyrir ofan.

Norwich situr áfram sem fastast á botni deildarinnar með aðeins 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert