Naby Keita, miðjumaður Liverpool, fór meiddur af velli í 2:2 jafntefli liðsins gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í gær.
Af þeim sökum mun hann missa af stórleik Liverpool gegn Spánarmeisturum Atlético Madríd í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn kemur.
Þetta staðfesti Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool í samtali við opinbera heimasíðu félagsins eftir leikinn í gær.
Keita meiddist aftan á læri og á eftir að fara í nánari skoðun þar sem mun koma í ljós hversu alvarleg meiðslin eru og þá hve lengi hann verður frá.
„[E]f einhver finnur til aftan í læri yrði þetta í fyrsta sinn sem hann yrði tilbúinn fyrir næsta leik. Þannig að ég sé það ekki gerast,“ sagði Klopp.