West Ham vann öruggan 4:1-útisigur á Aston Villa í síðari leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Ben Johnson kom West Ham yfir strax á 7. mínútu en Ollie Watkins jafnaði fyrir Villa á 34. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar sá Declan Rice hinsvegar til þess að West Ham færi með 2:1-forskot í hálfleikinn.
Vont varð verra fyrir Aston Villa á 50. mínútu er Ezri Konsa fékk að líta beint rautt spjald. West Ham nýtti sér liðsmuninn því Pablo Fornals skoraði þriðja markið á 80. mínútu og fjórum mínútum síðar gulltryggði Jarrod Bowen 4:1-sigur gestanna.
West Ham hefur verið á góðu skriði á leiktíðinni og er liðið í fjórða sæti með 20 stig. Aston Villa er í 15. sæti með 10 stig.