Sænski miðvörðurinn Viktor Lindelöf meiddist á æfingu hjá Manchester United í morgun og fór því ekki með liðinu til Ítalíu í dag en United mætir Atalanta í Meistaradeildinni í fótbolta í Bergamo annað kvöld.
Þetta kemur fram á heimasíðu Manchester United en að öðru leyti eru allir sem léku gegn Tottenham á laugardag tilbúnir í ferðina. Þá bætist Paul Pogba í hópinn en þó hann sé í leikbanni á Englandi í tvo leiki til viðbótar má hann spila í Meistaradeildinni.
Manchester United er efst í F-riðli Meistaradeildarinnar með sex stig eftir þrjár umferðir af sex. Villarreal og Atalanta eru með fjögur stig hvort og Young Boys, sem vann United í fyrstu umferðinni, er með þrjú stig.