Nuno sagt upp störfum hjá Tottenham

Nuno Espiríto Santo á hliðarlínunni á leik Tottenham og Manchester …
Nuno Espiríto Santo á hliðarlínunni á leik Tottenham og Manchester United á laugradaginn. AFP

Enska félagið Tottenham Hotspur hefur sagt upp knattspyrnustjóranum Nuno Espírito Santo eftir aðeins fjóra mánuði í starfi.

Þjálfarateymi hans hefur einnig verið leyst frá störfum en það skipuðu Ian Cathro, Rui Barbosa og Antonio Días.

„Ég veit hversu mikið Nuno og þjálfarateymi hans lögðu á sig til að ná árangri og ég harma að við skyldum þurfa að taka þessa ákvörðun. Nuno er sannur heiðursmaður og verður ávallt velkominn hér. Við þökkum honum og þjálfarateymi hans fyrir hans störf og óskum þeim góðs gengis í framtíðinni," sagði Fabio Paratici framkvæmdastjóri Tottenham í yfirlýsingu frá félaginu.

Nuno, sem er 47 ára gamall Portúgali, tók við liði Tottenham í sumar en hann hafði þá stýrt Wolves undanfarin fjögur ár og áður m.a. liðum Porto og Valencia. Hann náði aðeins að stjórna Tottenham í 17 leikjum í deild, bikar og Evrópukeppni.

Eftir góða byrjun hjá Tottenham í deildinni í ágústmánuði og sigra í þremur fyrstu leikjunum hefur liðið aðeins fengið sex stig í síðustu sjö leikjum og aðeins náð að skora níu mörk í fyrstu tíu leikjum sínum á tímabilinu. Tottenham tapaði 0:3 fyrir Manchester United á heimavelli á laugardaginn og það reyndist vera síðasti leikurinn þar sem Nuno var við stjórnvölinn hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert