Serbneskur markaskorari til Tottenham?

Dusan Vlahovic fagnar marki fyrir serbneska landsliðið í undankeppni HM.
Dusan Vlahovic fagnar marki fyrir serbneska landsliðið í undankeppni HM. AFP

Serbneski knattspyrnumaðurinn Dusan Vlahovic þykir líklegur til að fara frá Fiorentina á Ítalíu til Tottenham á Englandi í janúarmánuði, samkvæmt frétt Gazzetta dello Sport í dag.

Vlahovic skoraði öll þrjú mörk Fiorentina í 3:0 sigri á Spezia í gær en hann er aðeins 21 árs gamall og þykir einn efnilegasti framherji í Evrópu um þessar mundir. Hann er samningsbundinn Fiorentina í hálft annað ár í viðbót en forseti félagsins hefur skýrt frá því að Vlahovic vilji ekki framlengja þann samning.

Gazzetta dello Sport segir að fulltrúar Fiorentina og Tottenham hafi hist í London í síðustu viku til að ræða málin.

Vlahovic hefur leikið með Fiorentina frá 2018 og hefur skorað 35 mörk í 88 leikjum í ítölsku A-deildinni. Talið er að Tottenham þurfi að greiða um 50-60 milljónir punda fyrir hann.

Vlahovic, sem er uppalinn hjá Partizan Belgrad, hefur skorað sex mörk í fyrstu tólf landsleikjum sínum fyrir Serbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert