Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez, sem var aðalmarkaskorari enska liðsins Liverpool í þrjú ár, segir að hann sjái veikleika hjá sínu gamla félagi en hann mætir því sem liðsmaður Atlético Madrid á Anfield á miðvikudaginn.
Liðin eigast þá við í Meistaradeild Evrópu, í annað sinn á þessu hausti, en Liverpool vann fyrri leik þeirra í Madríd 3:2 og stendur mjög vel að vígi í riðlinum. Eftir fyrri umferðina er Liverpool með 9 stig, Atlético 4, Porto 4 en AC Milan er án stiga.
„Við vitum að Liverpool er með nokkra veikleika sem við gætum nýtt okkur, og það ætlum við að reyna að gera. Við verðum að vera afar einbeittir því fyrir utan þá styrkleika sem eru í liðinu eru þeir með aukamann á vellinum, áhorfendurna á Anfield, og það gerir verkefnið enn erfiðara fyrir okkur," sagði Suárez í viðtali við uefa.com.
Suárez skoraði 69 mörk í 110 leikjum fyrir Liverpool í úrvalsdeildinni á árunum 2011 til 2014 og samtals 82 mörk í 133 mótsleikjum fyrir félagið. Hann skoraði 21 mark í spænsku 1. deildinni á síðasta tímabili þegar Atlético varð meistari en hafði í millitíðinni skorað 198 mörk í 283 mótsleikjum fyrir Barcelona.