Unai Emery, knattspyrnustjóri spænska félagsins Villarreal, hefur rætt við stjórnarmenn enska félagsins Newcastle United um að taka við lausri stöðu knattspyrnustjóra þess.
Steve Bruce lét af störfum á dögunum eftir rúmlega tveggja ára starf í kjölfar þess að sádi-arabískur fjárfestahópur keypti meirihluta í félaginu.
Undanfarna tvo daga hefur Emery átt í viðræðum við toppa Newcastle og eru frekari viðræður áætlaðar á morgun.
Samkvæmt Sky Sports er Emery númer eitt á óskalista nýrra eigenda.
Þar kemur einnig fram að Emery sé ánægður hjá Villarreal, en að hann vilji heyra hvað stjórnarmenn Newcastle hafi að segja.
Portúgalski stjórinn Paulo Fonseca var í síðasta mánuði orðaður við starfið en er fallinn aftar í goggunarröðina og því ólíklegt að hann muni taka við stjórnartaumunum hjá Newcastle að svo stöddu.