Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar sér að taka í höndina á Diego Simeone, stjóra Atlético Madrid, þegar liðin mætast í B-riðli Meistaradeidlarinnar á Anfield í Liverpool á morgun.
Liðin mættust á Metropolitano-vellinum í Madríd 19. október þar sem Liverpool fór með 3:2-sigur af hólmi í frábærum fótboltaleik.
Eftir leikinn reyndi Klopp að ná til Simeone og þakka honum fyrir leikinn en argentínski knattspyrnustjórinn hljóp beint í átt að búningsherbergjum.
Fjölmiðlamenn gerðu mikið úr atvikinu eftir leik og var Klopp spurður nánar út í það á blaðamannafundi í morgun.
„Ég ber mikla virðingu fyrir því sem hann er að gera og hefur gert með Atlético Madrid,“ sagði Klopp.
„Ef ég hefði vitað það fyrirfram að hann hlypi alltaf beint inn í klefa í leikslok þá hefði ég ekki reynt að taka í höndina á honum.
Það eru engin vandamál og ég reikna með því að taka í höndina á honum á morgun áður en leikar hefjast,“ bætti Klopp við.