Unai Emery mun ekki taka við stjórnartaumunum hjá Newcastle United og halda þess í stað áfram í starfi sínu sem knattspyrnustjóri Villarreal.
Þetta segir spænski fótboltablaðamaðurinn Guillem Balague.
Hann greinir frá því að ráðgjafar Emery hafi ráðið honum frá því að taka við Newcastle að svo stöddu þar sem þeim þótti sýn og áætlanir félagsins fyrir framtíðina óljósar.
„Emery fann fyrir gífurlegri pressu daginn sem Villarreal átti leik. Svo var skortur á heildstæðri sýn hjá félaginu. Ef þú vilt fá hann, ferðu á eftir honum af slíkum asa, án þess að bjóða honum formlega samning og þar sem það kemur frá enska félaginu að þetta sé nánast frágengið?“ sagði Balague í samtali við BBC Sport.
Sky Sports greindi frá því í gær að Emery hafi átt í viðræðum við Newcastle í gær og í fyrradag. Villarreal átti leik í gær í Meistaradeild Evrópu þar sem 2:0 sigur vannst gegn Young Boys.
„Sá fjöldi og mismunandi aðferðafræði þeirra þjálfara sem eru á lista virtist einnig gefa til kynna nokkuð ráðvillta sýn. Það var áhyggjuefni hjá nokkrum þeirra sem ræddu við stjórnarmenn félagsins.
Ég sé þetta ekki gerast á þessu tímabili. Kannski á næsta ári þegar strúktúr félagsins er skýrari og sýnin betur skilgreind,“ bætti Balague við.
Samkvæmt BBC Sport hafði Emery áhuga á starfinu hjá Newcastle en eftir að eigendur Villarreal, Roig-fjölskyldan, leikmenn félagsins og hans eigin fjölskyldumeðlimir sögðu honum að vera um kyrrt hjá Villarreal tók Emery ákvörðun um að færa sig ekki um set.